top of page

"... þar aðeins við mig kann ég..."

Ég setti upp ljósmyndasýningu í safnaðarheimili Akureyrarkirkju í dag. Hún verður opin á opnunartíma safnaðarheimilisins eitthvað fram eftir vetri. Grunnurinn að þessari sýningu er sýning sem Lára Bryndís Eggertsdóttir, organisti í Hjallakirkjua, bauð mér að halda þar sl. vor. Þá setti hún saman tónleikaefnisskrá sem passaði svona líka vel við myndirnar mínar. Yfirskrift tónleikanna hjá henni og kórnum var "Draumalandið", og er þar vísað í lag Sigfúsar Einarssonar.


Mér finnst það lag undurfagurt og ljóð Jóns Trausta ekki síðra. Ég vildi ekki kalla sýninguna hér fyrir norðan sama nafni, en fékk samstarfsfólk mitt í Akureyrarkirkju til að hjálpa mér við að velja ljóðlínu sem gæti verið góð yfirskrift. "...þar aðeins við mig kann ég..." lýsir mér afar vel. Ég kann lang best við mig úti í kyrrðinni, sem ég held að einkenni myndirnar mínar. Og við hljóðfæri. Ég hef haldið fyrirlestra um tónlist í ljósmyndum mínum og því tengjast þessi atriði sem skipta mig svo miklu máli, tónlistin og náttúran.


Á sýningunni eru 16 ljósmyndir. Og svo er ég með nokkrar myndir á öðrum veggjum sem fá að fljóta með.


Allar myndirnar eru listilega vel prentaðar í Pedromyndum á Akureyri.

Ég er mínum góða félaga, Daníel Starrasyni ljósmyndara, afar þakklátur, en hann aðstoðaði mig myndavalið.


Verið hjartanlega velkomin.
94 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page