Yfirlit, hvað ætla ég að gera?
Ég ætla að finna og fanga fegurð Dalasýslu með listrænni landslags- og náttúruljósmyndun. Hluti myndanna verður gefinn einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum í Dalasýslu, til notkunar á heimasíðum, samfélagsmiðlum eða auglýsingum. Samhliða landslagsljósmyndun mun ég einblína á fuglaljósmyndun og skráningu fuglategunda í Dölum. Ljósmyndasýning verður haldin árlega á meðan verkefni stendur. Einnig stefnt á pop-up tónleikar og fyrirlestra um fugla og náttúru Dala. Hugmyndin er að halda þessa viðburði í kirkjum í Dölum.

Hvernig varð verkefnið til?
Ég held að margt fólk á mínum aldri, komið yfir fimmtugt, kannist við að skyndilega hafi orðið til áhugi á æskuslóðum, ættfræði og öðru sem tengist æsku og uppvexti. Nákvæmlega það gerðist hjá mér. Í ágúst sl kvaddi ég ömmu mína, 97 ára gamla. Sem organisti að atvinnu tók ég hlutverk mitt við útför hennar mjög alvarlega og ákvað að velja að mestu tónlist sem tengdist Dalasýslu, en amma mín var alin upp í Sælingsdalstungu og hóf svo sjálf búskap þar með afa mínum á 6. áratug síðustu aldar. Þegar ég var að grúska í textum Dalaskáldanna kviknaði einhver áhugi hjá mér að skoða meira en bara textana. Ég fór að lesa bækur um Dalina, skoða vefsíður og ræða um byggðir Dalasýslu við foreldra mína, sem eru búsettir í Búðardal. Pabbi minn hringdi í ömmu mína flesta daga síðustu árin til að virkja hugsun hennar með því að láta hana rifja upp gamla tíma, en amma var gríðarlega fróð um fólk og staði í Dölum. Pabbi græddi mikið á þessu sjálfur, mikinn fróðleik um æskuslóðir hans og eldri kynslóðir. Nú er ég að gera það sama, safna í fróleiksbankann. Hugmyndin um að skrásetja fegurð Dalasýslu í ljósmyndum fæddist hægt og rólega og verkefnið stækkaði eftir því sem ég lá meira í bókum og landakortum. Ég fékk pabba í lið með mér, hann tók að sér að safna upplýsingum um staði, skrifa niður ýmislegt sem hann man eftir, safna örnefnum og tala við bændur og landeigendur í Dölum til að fá upplýsingar og sögur frá þeim og til að fá leyfi fyrir ferðum mínum á bújörðum. Ég setti inn færslu í Facebookhópinn Dalirnir okkar og fékk alveg hreint stórkostleg viðbrögð, mjög mikla hvatningu og jákvæðni, hugmyndir og ábendingar og boð um að aðstoða mig, ganga með mér, sigla með mér, lána mér hús, báta og bústaði o.s.frv. Mér þótti afar vænt um þessi sterku viðbrögð sem komu mér mjög á óvart, ekki aðeins á síðunni, heldur fékk ég einnig mikinn fjölda tölvupósta, skilaboða og símhringinga.
Konseptið:
Ég lít á verkefnið sem endalaust en ég set mér þau markmið að vera búinn að skrásetja helstu staði í allri sýslunni eftir 5 ár. Ég mun þó einbeita mér að vestursýslunni fyrstu 2-3 árin. Til að byrja með verða myndirnar aðgengilegar á heimasíðunni https://www.eythoringi.com/dalir Þegar verkefnið er komið vel af stað mun ég búa til heimasíðu fyrir verkefnið. Hvert ár verður gert upp með ljósmyndasýningu í Dalasýslu þar sem sem ég mun verða með bland af hágæða útprentunum, innrömmuðum og prentuðum á striga eða foam plötur og myndum sem verða á hágæða skjá, sem er sérstaklega hannaður fyrir myndasýningar. Einnig stefni ég á “pop-up” viðburði í kirkjum í Dalasýslu þegar ég er á ljósmyndaferðum, en þar mun ég fjalla um fugla á svæðinu og um verkefnið, flytja tónlist af svæðinu, stundum með aðstoð eiginkonu minnar, Elvýjar G. Hreinsdóttur, og vera með litla myndasýningu á skjá. Titill verkefnisins, Dalverjans lönd, er tekinn úr ljóði Hallgríms Jónssonar frá Ljárskógum, Undir Dalanna sól. Fyrri hluti verkefnisins, vesturhluti sýslunnar hefur fengið nafnið Skyggnst um af Skeggöxl, þar sem fjallið Skeggöxl er e.k. miðpunktur vestursýslunnar, þaðan liggja ótal dalir í allar áttir.

Ég mun ljósmynda:
• Landslag - Fjöll, eyjar, ár, fossar, klettar o.s.frv. Ekki bara dæmigerðar víðlinsumyndir, heldur einnig nota dróna, aðdráttarlinsur o.fl.
• Náttúrufyrirbæri - Norðurljós, vatnavexti, úrkomu, sólsetur, skýjafar, vind o.s.frv.
• Dýralíf - Ég hef mjög mikla reynslu af fugla- og spendýraljósmyndun og fuglar og selir í Dölum vekja áhuga minn. Þeir munu svo sannarlega fá ríkulegan sess í safninu og ég mun í leiðinni halda dagbók þar sem ég skrái fuglalíf í Dölum, en ég hef undanfarin 15 ár tekið þátt í fjölda fuglatalninga- og skráningarverkefnum í sjálfboðavinnu, bæði einn og með fuglafræðingum og öðru áhugafólki. Mér hefur verið treyst til að mynda haferni, fálka og þórshana á varpstöðvum og hef fengið leyfi til þess frá Umhverfisstofnun. Fegurð Dalanna er ekki fullkomnlega skráð nema haförninn sé myndaður. Á fyrirlestrum tengdum verkefninu mun ég ræða sérstaklega um fuglalíf í Dölum og fræða fólk um fuglategundir.
• Minni viðfangsefni - Gróður, steinar, pollar, skordýr o.fl.
• Kirkjur - Kirkjur sýslunnar fá sér meðferð, enda ólíkar og með ólíka sögu. Ég hef áhuga á að fá að nýta þær í verkefninu, halda í þeim viðburði sem innihalda myndasýningar af skjá, tónlist og fyrirlestra.
• Hlutir sem ég mun mynda en ekki leggja höfuðáherslu á:
Sveitabæir, rústir, mannvirkjaleifar, mannfögnuðir, mannlíf á fallegum stöðum
• Það sem ég mun ekki mynda nema að viðfangsefnið sé fallegt:
Sögustaðir. Sögu Dalasýslu hefur verið gerð góð skil í bókum, skiltum, námsefni o.fl. Ég ákvað að það væri of mikil vinna að skrá sögustaðina í myndum, nema um sé að ræða staði sem eru sérstaklega áhugaverðir ljósmyndalega.
Ég mun mynda fyrirbærin á öllum árstíðum.

Eru góð myndefni í Dalasýslu?
Já! Ég hef hingað til einblínt á Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur í landslagsmyndum mínum. Þar er afar fjölbreytt og kraftmikið landslag. Stærstu fossar landsins, mörg hæstu og tignarlegustu fjöllin, háhitasvæði, gríðarleg standbjörg fram í sjó og miklar jökulár. Það er því skemmtileg áskorun fyrir mig að fara að mynda Dalina, þar sem fjöllin eru ávöl og mun lægri en fyrir norðan, fossar og ár eru mun minni en Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót, og engin virk eldfjöll, hraun o.fl. En það er svo sannarlega mikið af einstaklega fallegum stöðum í Dölum, ótrúlega litrík líparítsvæði, gullfallegar klettamyndanir, einstakar eyjar og strandlandslag, magnaðir klettar og óviðjafnanlegt útsýni yfir Breiðafjörð. Í Dölum er líka kvöldbirta á sumrin sem er einstök. Því miður sjá fæstir það besta og fallegasta í Dalasýslu. Það er von mín að vandaðar ljósmyndir af svæðinu aðstoði við að breyta því og hvetji áhugasamt útivistarfólk, ljósmyndara og almennt ferðafólk til að staldra við í Dölum og finna fegurðina sem þar má finna.
Reglur sem ég set mér:
• Ég mun fylgja almennum siðareglum ljósmyndara
• Ég mun alltaf biðja um leyfi landeigenda og láta þá vita ef ég er að þvælast um jarðir þeirra.
• Ég mun aldrei aka utan vegar, ekki kveikja eld, ekki skilja eftir mig rusl, ekki trufla varp fugla og ekki trufla búfénað.
• Ég mun ekki birta opinberlega hnit á ljósmyndum, svo ferðamenn fari ekki að sækja inn á jarðir ef myndir skyldu fara í einhverja netdreifingu.
• Ég mun spyrja landeigundur og/eða ábúendur hvort þeir hafi eitthvað á móti því að ég skrifi hvar myndir eru teknar. Ef lagst er gegn því þá mun ég ekki birta þær myndir með nafni eða staðsetningu.
• Ég mun ekki fljúga dróna yfir búfé eða fólki (Er með drónapróf frá Samgöngustofu)

Munu Dalamenn og aðrir geta nýtt myndirnar?
• Ég mun vera með nokkrar stafrænar myndir, af helstu og þekktustu stöðum, sem hver sem er getur notað án endurgjalds í auglýsingaskyni, eða á heimasíðum.
• Ég mun vera með allar myndir til sölu, tilbúnar á vegg, prentaðar á hágæða ljósmyndapappír eða striga og svo að sjálfsögðu vefmyndir eða annað sem beðið er um.
• Ég mun taka loftmyndir af bæjum þar sem ég hef verið að mynda til að senda ábúendum stafrænt í þakklætisskyni. Myndirnar verða í vefupplausnum. Myndirnar fá þeir sér að kostnaðarlausu og geta notað til að skreyta samfélagsmiðla, eða til að nota í kynningarstarfi, t.d. til að kynna afurðir beint frá býli, ferða þjónustu eða annað.
Annað sem ég stefni á að gera, ef tími gefst:
• Ég hef áhuga á að taka upp landslagsmyndbönd og setja á YouTube síðu mína. Mun þar setja tónlist í eigin flutningi við, helst tónlist tengda Dalasýslu.
• Ég hef áhuga að vera með myndbandaspjall á samfélagsmiðlum um verkefnið, segja frá stöðum og upplifunum.
• Ég stefni á að vera með blog á heimasíðu minni eða samfélagsmiðlum
• Ég hef áhuga á að mynda áhugaverða og myndvæna karaktera á heimaslóðum í fallegu umhverfi
Comentarios