Enn á ný fórum við félagarnir á miðvikudagsrúnt.
Við vissum að það yrði heiðskírt allan daginn og fram á nótt, þannig að það var ákveðið að ná næturmyndum. Við fórum því ekkert of snemma af stað. Sólin var lágt á lofti og skuggar langir og fallegir. Við byrjuðum á einum af hinum mögnuðu dölum við vestanverðan Eyjafjörð, Svarfaðardal. Fjallasýn í Svarfaðardal er ævintýraleg. Dalurinn er alltaf fallegur.Skáldkonan Hugrún gerði ljóðið Svarfaðardalur, sem er sungið við lag Pálmars Þ. Eyjólfssonar.
Fyrsta erindi:
Dal einn vænan ég veit
verndar Drottinn þann reit.
Allt hið besta þar blómgast hann lætur.
Þar er loftið svo tært,
þar er ljósblikið skært,
þar af lynginu er ilmurinn sætur.
"Þar er loftið svo tært, þar er ljósblikið skært" - Blakksgerði í Svarfaðardal
Í síðasta erindinu stendur:
Hann er töfrandi höll,
hann á tignarleg fjöll,
þar í laufbrekkum lækirnir hjala.
Mér er kliður sá kær,
ég vil koma honum nær.
Hann er öndvegi íslenskra dala.
Þetta eru stór orð, “Hann er öndvegi íslenskra dala” en ég er ekki frá því að það eigi bara ágætlega við :) Ég er ekki mikill aðdáandi ættjarðarlaga. Finnst þau jafnan rembingsleg og byggð upp á klisjulegan hátt en ljóð Hugrúnar er fallegt eins og dalurinn.
Hér er tónleikaupptaka af laginu frá tónleikum Kórs Akureyrarkirkju.
Við þvældumst svolítið um dalinn fagra. Vetrarsólin varð meginþemað hjá okkur og það var gaman að leita að öðrum sjónarhornum.
Við félagarnir höfum áður myndað á þessum slóðum og þá vorum við mest inni í Skíðadal. Við kíktum aðeins inn í þá paradís núna líka.
Sólin sest í Skíðadal
Eftir að hafa skroppið til Dalvíkur til að kíkja á myndefni hjá Framnesi, því einstaka bæjarstæði, var ákveðið að fara í Öxnadal. Við byrjuðum á að mynda Þverbrekkuhnjúk með Öxnadalsána í forgrunni.
Við Öxnadalsá, Þverbrekkuhnjúkur fjær
Öxnadalur
Þarna var orðið andstyggilega kalt. Mér verður yfirleitt ekki kalt í svona ferðum. Oftast nóg að vera í einni góðri lopapeysu frá Ingu Salóme Egilsdóttur (ég á nokkrar æðislegar peysur frá henni), en þarna var ég kominn í úlpuna utanyfir og frostið væntanlega -15-20°. Daníel virtist samt ekki vera að frjósa á þessari mynd.
Einn hávaxinn og grannur ljósmyndari og félagi hans
Ljósaskiptin eru dásamlegur tími í vetrarmyndatöku sem á sumrin. Við hentumst yfir í Hörgárdalinn og náðum nokkrum myndum úr síðustu birtumínútunum.
Þarna va
r ákveðið að fara heim, setja meira heitt vatn á brúsana og mæta aftur á svæðið um 2 tímum seinna. Það var gáfuleg ákvörðun. Við mættum í Hörgárdalinn aftur um kl. 20 og vorum sitt hvoru megin við Hraundrangann eitthvað aðeins fram á næsta dag. Mikið klæddir í brunagaddi. En það var magnað. Og ég mun aldrei gleyma því andartaki þegar loftsteinn kom óvenju lágt á lofti og lýsti upp allan dalinn í 2-3 sekúndur. Hann náðist ekki á mynd, en ég var að taka mynd í hina áttina og það er furðulegt að sjá muninn á birtunni á myndum sem eru teknar með nokkurra sekúndna millibili. Stórkostleg upplifun.
Ég kom heim klukkan að ganga tvö um nóttina og eins og áður, þá gengur mér illa að sofna eftir svona ferðir. Þegar maður hefur séð margt sem er ólýsanlega fallegt, þá þarf maður smá stund til að melta það allt.
Comentarios