top of page

Ferð um fallegar sveitir

Undanfarna mánuði hef ég lagt mjög mikla áherslu á tónlistarflutning, kóræfingar og orgelæfingar. Því miður hef ég lítið sem ekkert komist út í náttúruna. Nú þegar bölvaður vírusinn herjar á samfélagið og því minna að gera í tónlistinni, gafst kærkomið tækifæri til að fara í dagsferð. Veðrið var gjörsamlega meiriháttar. Kalt, sunnanátt og heiðskýrt. Reyndar er ég hrifnari af skýjum á myndunum mínum, en maður tekur bara myndir af því sem býðst.


Eftir að hafa hitað vatnið, sett soðin bjúgu, ostbita og brauð í bílinn, lagði ég af stað. Það var ótrúlega gaman að keyra til Húsavíkur. Ég fór Reykjadalinn, þótt mér finnist Kinnin hafa sinn sjarma. Óhemju mikill snjór er á þessari leið. Fljótsheiðin er slétt og það er eitt sem einkenndi heiðarnar sem ég fór. Þar var minna landslag en venjulega, ávalar línur, sumar ár ekki sjáanlegar og margt þessvegna öðruvísi en maður er vanur.


Ég skilgreini mig sem náttúrubarn og finn alveg að ef ég kemst lítið út í náttúruna, verð ég aðeins alvarlegri. Í gær fann ég hvernig mjög orkan færðist yfir mig eftir því sem ég var lengur í ferðinni. Ég fór að skokka frá bíl að myndastöðum, varð minna og minna syfjaður og gleðin færðist yfir mig.


Kelduhverfið er alltaf jafn fallegt. Ég ákvað að vera ekkert að mynda af ráði fyrr en ég kæmi þangað. Gallinn við að ferðast við þessar aðstæður er sá að þegar maður er bara á jepplingi þá eru meira og minna allir hliðarvegir og vegslóðar ófærir. Þannig að ég hélt mig í nágrenni við aðalvegi. Ég byrjaði á að stoppa við Lónsós. Þar er gaman að vera, þótt veðrið sér sjaldan gott þar :) Ég á góðar minningar þaðan, þegar ég myndaði vöðuseli um árið.
Rykið var dustað af drónanum. Ég hef ekkert notað hann lengi og það var gaman að fljúga aðeins.


Alltaf er gaman að vera í Kelduhverfinu og ég eyddi dágóðum tíma þar, þótt ég hafi myndað lítið. Ég sá reyndar ský sem virtust vera mótuð eftir vörðu:Ég hef mjög gaman af því að nota aðdráttarlinsur í landslagsmyndatöku. Geri jafnvel meira af því heldur en að nota víðlinsur.


Öxarfjörður er líka afar falleg sveit. Víst ég hafði ekki gleymt því hvernig ætti að fljúga drónanum ákvað ég að mynda Öxarnúpinn og Grettisbælið. Skyldi Grettir Ásmundarson í alvöru hafa dvalið þarna?
Við Brunnárlón flugu nokkrar stokkendur fram hjá mér:
Ég kíkti aðeins á Kópasker. Var að spá í að fara fyrir Sléttu, en þar sem ekkert eftirlit er með veginum á veturna ákvað ég að snúa við og fara auðveldu leiðina :) Hádegisverðurinn var snæddur í Kötluviðarhrauni, á miðjum veginum. Engin umferð og ég einn í heiminum. Ég dólaði mér norður til Raufarhafnar og þaðan á mikla uppáhaldsstaði, Ásmundarstaði og Harðbaksvík Ég sá að þar var skýjahula, en hún hvarf um leið og ég kom. Tveir grafandarsteggir virtust ekki hafa fattað að þeir eru farfuglar og fálki flaug með fram veginum á þessum slóðum. Melrakkasléttan er fáfarin perla. Segið samt engum frá því :)


Ég fór til baka, í gegn um Hófaskarð, Þórshöfn og ákvað að athuga hversu langt ég kæmist út á Langanes. Það eru magnaðar fjörur áður en maður fer að hækka sig á leið út nesið.Langanes er einn af mínum uppáhalds stöðum. Náttúran er engu lík. Ég eyddi aðeins of löngum tíma í fjörunni, hafði ætlað mér að ná sólsetri á Möðrudalsöræfum. En það var þess virði að slaka á í fjörunni.


Eftir að hafa fengið vatn á hitabrúsann á Þórshöfn keyrði ég yfir í Finnafjörð. Þar er dásamlegt útsýni yfir Gunnólfsvíkurfjall. Er ekki svolítið eins og að höggmyndasmiður náttúrunnar hafi mótað steininn eftir fjallinu?Sólin var að setjast og birtan engu lík!


Mér er gjörsamlega ómögulegt að muna hvað víkin og stapinn heita á næstu mynd. Það má einhver benda mér á það:

í Miðfirði er eyðibýli og falleg gömul brú. Svo er alltaf skyldustopp hjá skáldinu við Djúpalæk.

Miðfjörður
DjúpilækurÉg ók svo í gegn um Bakkafjörð, hálsinn yfir Vopnafjarðar og svo hina löngu Vopnafjarðarheiði. Þar var um 15 stiga frost og stíf sunnanátt.


Ekki náði ég neinu sólarlagi á Möðrudalsöræfum, en ég borðaði kvöldverðinn í Jökulkinninni, með magnað útsýni yfir Geldingafellið og fjalladrottninguna sjálfa (Herðubreið).Geldingafell


Ég kom svo heim, 14 1/2 tíma eftir að ég lagði af stað. Fullur af orku, gleði og aðdáun.


Mikið svakalega búum við í fallegu landi.

137 views0 comments

Comments


bottom of page