top of page
Writer's pictureEyþór Ingi Jónsson

Hraundrangi og Þverbrekkuhnjúkur

Það eru örfáir staðir á landinu sem hafa þau áhrif á mann að maður fer ósjálfrátt að stara á þá. Oftast eru þetta fjöll. Það eru sennilega tveir staðir hér á Norðurlandi sem draga mig svona að sér. Það er Fjalladrottningin, Herðubreið og svo Þverbrekkuhnjúkur og Hraundrangi í Öxnadal (Hraundranginn er vissulega líka glæsilegur í Hörgárdal)



Öxnadalur, Þvebrekkuhnjúkur, Vatnsdalur, Hraunsvatn, Kiðlingshnjúkur, Hraunsá


Við pabbi gengum einu sinni upp á Herðubreið. Það var magnað! Aðdáun mín á fjallinu minnkaði ekki við það. En ég hef ekki enn gengið upp á Þverbrekkuhnjúk og mun aldrei klifra upp á Hraundranga :)



Hraundrangi


Í haust minnkaði ég við mig í vinnu, fór niður í 70% stöðu við Akureyrarkirkju. Ástæðan var sú að mig langaði til að sinna spilamennsku enn betur og búa tækifæri til að mynda meira. Miðvikudagar hafa verið myndadagar hjá mér undanfarnar vikur. Miðvikudagurinn 21. október var myndadagur. Vinur minn Daníel Starrason, ljósmyndari, hefur ofast farið með mér í þessar vikulegu ferðir. Frábært að vera með góðum myndafélaga.

Kíkið á Daníel:


Við hittumst um morguninn en einhvernveginn fann ég mig ekki, sá ekki myndefni í neinu. Daníel þurfti svo að fara í bæinn og ég sagði honum að ég ætlaði aðeins að renna í Hörgárdalinn. Ég fór svo frekar í Öxnadal, fór að Hrauni, ætlaði svo aðeins að labba upp í Hólana, en endaði með allt draslið mitt upp á efstu hólunum fyrir neðan Drangann. Þetta var dýrðlegur dagur og þarna uppi fann ég neistann.



Hraunsvatn, Þverbrekkuhnjúkur, Vatnsdalur, Kiðlingshnjúkur


Ég hef langmest myndað fugla og það er mín sterkasta hlið. En landslagið heillar mig meira og meira og ég hef gaman af að gera tilraunir í því. Ég ákvað að fara með nokkrar linsur þarna upp, því ég var búinn að ákveða að taka bæði HDR myndir, en þar tek ég nokkrar myndir sem eru allt frá því að vera talsvert undirlýstar í að vera talsvert yfirlýstar. Þeim blanda ég saman þannig að ég get náð bæði hvítum snjónum og dökkum skuggum eins og augað sér það. Einnig var ég búinn að ákveða að búa til Panorama, þar sem ég tek margar myndir með aðdráttarlinsu og sauma þær svo saman með hugbúnaði. Þannig verður til mynd með mjög hárri upplausn og engri bjögun, en víðlinsur bjaga myndir talsvert.



Kista, Hraundrangi, Drangafjall. Panorama sett saman úr 16 ljósmyndum



Þverbrekkuhnjúkur, Hraunstapar, Kiðlingshnjúkur, HDR samsett úr 3 myndum.


Það er erfitt að lýsa því hvernig tilfinning það er að vera í nýföllnum snjónum, einn í þessari þögn sem er svo dásamleg, með alla þessa fegurð fyrir framan sig. Það er mér afar mikilvægt að vera ekki bara að taka myndir, heldur setjast niður og njóta. Ég set hughrif gjarnan í samband við einhverja tónlist. Ég held að þessi móment séu fyrir mér eins og "Húm" eftir Atla Örvarsson. Tært, kyrrð, passlegt af öllu, þrír hljómar, eins og þrjó megin þemu í landslaginu. Yfirröddin eins og Hraundranginn. Örlítið tregafullt, eins og mér líður alltaf á svona stundum. Tilfinning sem ég get ekki útskýrt frekar, en er gríðarlega sterk.




Þegar ég var á leið niður eftir sendi ég Daníel skilaboð, sagði honum að ég hefði farið þarna upp. Fékk skilaboð frá honum. Dranginn hafði greinilega dregið hann að sér, því hann var á leiðinni upp. Dásamleg mynd hans frá Hraunsvatni er hér:




200 views0 comments

コメント


bottom of page