top of page

Ljósmyndaferð í austurátt

Við Daníel Starrason, ljósmyndari og góður vinur, förum reglulega saman í ljósmyndaferðir. Þetta eru afar skemmtilegar ferðir og mjög lærdómsríkar fyrir mig. Ég læri margt af Daníel, sem er frábær ljósmyndari, finn stílinn minn í landslagsljósmyndun og svo læri ég á landið okkar.


Tveir í kulda. Undirritaður verr haldinn, í tveimur lopapeysum og úlpu


Um daginn var ákveðið að fara austur á bóginn, vera ekki að stoppa mikið fyrr en komið væri í Kelduhverfi. Skyldustopp er í Fjallahöfn. Fallegt mynstur má finna í fjörugrjóti, þar er kolsvartur sandur og fallegt útsýni í austurátt.Valþjófsstaðafjall í fjarska


Þar eru oftast selir og það var ekkert öðruvísi í þetta skiptið. 4 landselir tóku á móti okkur. Dásamlega forvitin og skemmtileg dýr.


Landselur


Eftir gott stopp var haldið áfram. Að þessu sinni var ekki stoppað í hinni stórskemmtilegu verslun í Ásbyrgi. Þar er gaman að stoppa, því m.a. eru seldir geisladiskar þar. Alveg til fyrirmyndar!

Við ákváðum að fara austurfyrir Jökulsá og keyra suður með henni þeim megin. Snjór var á vegi en gamli góði Blazer mallaði þetta örugglega. Fyrst stoppuðum við við Hafragilsfoss. Stórkostlega fallegt umhverfi í vetrarblámanum.Hafragilsfoss í Jökulsá á Fjöllum

Því næst héldum við að Dettifossi, konungi íslenskra fossa. Við Daníel erum mikið fyrir að mynda í ljósaskiptunum og á kvöldin. Við hittum á góðan tíma sólarhringsins. Falleg ljósaskiptin þennan dag. Reyndar erum við sammála um að Dettifoss njóti sín e.t.v. betur þegar myndir eru teknar á miklum lokahraða, þannig að vatnið “frjósi” á myndinni. Þannig upplifir maður frekar kraft fossins. Eins og má t.d. sjá á þessum gömlu myndum:
Dettifoss úfinn


Það var ekki mikið vatn í Jökulsá núna, en samt ótrúlega kraftmikil upplifun að vera þarna. Þar sem birta var orðin lítil þurftum við nær eingöngu að taka dæmigerðar mjúkar fossamyndir, þar sem lokahraði er lítill og vatnið myndar mjúkar línur.
Eftir góðan kaffisopa og nestisát var haldið áfram í suðurátt. Drottningin sjálf, Herðubreið, dróg okkur í þá áttina. Mögnuð áhrif sem það fjall hefur á mann, jafnvel þótt maður sé í órafjarlægð..Herðubreið, mynd tekin frá Dettifossi með 400mm linsu


Skýjahulan hvarf hratt og stjörnuhimininn birtist. Við vissum að tunglið myndi ekki skína þetta kvöld. Við vorum glaðir með það, enda vildum við enga ljósmengun frá því. Og engin norðurljós voru heldur til að byrja með. Við vorum líka glaðir með það, því þau skemma svolítið stjörnumyndir. Amk gera manni erfiðara fyrir. Stoppað var við Hrossaborg á Mývatnsöræfum. Gengum við þar um svæðið í kolsvarta myrkri, logni, mátulegu frosti. Þessi tími var stórkostlegur.
Ég hef undanfarið loksins viðurkennt fyrir sjálfum mér að ég sé hálfgerður einfari. Mér líður best einn eða með fáa í kring um mig, helst fólk sem ég þekki vel. Það var því hálfgerð helgistund fyrir mér að vera með Danna í þögninni þarna uppi á öræfunum. Gjörsamlega magnað.

Eftir meira kaffi var haldið í Mývatnssveitina sífögru. Námaskarð gaf lítið þetta kvöldið og því héldum við í átt að Hverfjalli. Þar einbeittum við okkur að því að fanga fagurt landslagið og leyfa smá norðurljósum að flækjast með :) Ég hef lítið tekið af dæmigerðum vetrarbrautar- og norðurljósamyndum. Hef einhvernveginn ekki haft áhuga á þessum fyrirbærum sem slíkum á myndum, nema ef þau eru í aukahlutverki á myndinni. Mér finnst núna gaman að gera svoleiðis tilraunirHverfjall


Maður hefði auðvitað getað verið fram á morgun á þessum stað, næg voru myndefnin. En komið var fram yfir miðnættið og karlarnir verið á ferð í 13-14 tíma. Því keyrðum við áfram en urðum að stoppa aðeins við Másvatn.Norðurljós við Másvatn


Síðasta stopp var við Goðafoss, hinn geysilega fallega foss í Skjálfandafljóti. Þar voru aðstæður nokkuð erfiðar og einbeitingin kannski aðeins minni en í upphafi ferðar. En ég var þó heppinn að ná einu góðu stjörnuhrapi inn á mynd.Stjörnuhrap við Goðafoss

Dásamlegt að koma eftir einhverja 15 klukkutíma og langa útiveru.


Kíkið endilega á Daníel á Instagram. Frábærar myndirnar hans þar

168 views0 comments

Comments


bottom of page