top of page
Writer's pictureEyþór Ingi Jónsson

Rauðanes

Hér kemur játning. Ég hafði aldrei komið á Rauðanes í Þistilfirði þar til í fyrradag.




Ég hafði nokkru sinnum verið spurður hvort ég hefði ekki örugglega farið á Rauðanes. Ég skammaðist mín eiginlega alltaf þegar ég svaraði neitandi. Ég hef farið í óteljandi ljósmyndaferðir á svæðið, oftast á Langanes. Alltaf keyrði ég framhjá Rauðanesinu og hugsaði með mér að ég yrði fljótlega að fara þangað.





Í fyrradag fór ég þangað. Labbaði í klukkustund, en birtan var ekki nógu falleg, þannig að ég snéri við. Ég gerði svo aðra tilraun í gærmorgun og allt var fullkomið. Logn, hlýtt, ég aleinn, birtan falleg.




Mér líður vel í svona umhverfi. Fuglabjörg heilla. Hávaðinn sem fylgir þeim er sem fallegasti söngur í mín eyru. En um miðjan október er nánast þögn. Maður heyrir í einstaka músarrindli, hlýtt blaður æðarfuglanna, og svo blístur straumandanna, sem voru margar í kring um nesið. Tveir stórir hópar sendlinga juku svo bara á upplifunina með samhæfðu flugi sínu. Lítill opinn bátur með utanborðsmótor rauf þögnina, sigldi út á fjörðinn og var svo þar kyrr lengi. Sá sem fiskaði hefur átt dýrðarstund á sjó. Ég prófaði að mynda aðeins með dróna, en hætti því strax. Hvinurinn í drónanum eyðilagði bara stemmninguna.





Nesið er þekkt fyrir óteljandi gatkletta, hella og litríka kletta. Svo er fuglalíf einstakt. Það er tiltölulega auðvelt að ganga hringinn, en hann er sagður vera um 7 km. Ég tók smá krók og síminn sagði að ég hefði gengið 10 km. Það finnst mér trúlegt.





Ég tel það vera forréttindi að búa á NA-landi. Hér eru stórkostlegir staðir til að heimsækja. Svakalega fallegir staðir í Eyjafirði, Mývatnssveit og Þingeyjarsveit, en Norðurþing er einhvernveginn í sérstöku uppáhaldi. Kannski af því að þar er ekki of mikið af fólki. Ég er nefnilega svolítill einfari í mér. Kannski ætti ég ekkert að vera að dásama Kelduhverfi, Öxarfjörð, Núpasveit, Melrakkasléttu, Rauðanes og Langanes svo ég haldi áfram að vera einn í heiminum þar :D



Arnarstaðabás í Öxarfirði


Á leiðinni í Þistilfjörðinn keyrði ég fyrir Melrakkasléttu. Hún er svo fallega hrjúf. Á leiðinni heim fór ég svo nýju hraðbrautina vestan Jökulsár. Fjalladrottningin blasti við í undalegri jökulbirtunni.





168 views0 comments

Comments


bottom of page