top of page

Updated: 4 days ago

Fyrsta ferðin vestur í Dali til að taka myndir í verkefnið Dalverjans lönd.


Það var hálfgerð skyndiákvörðun að fara vestur í lok janúar. Ég átti fríhelgi og notaði tækifærið til að fara að heimsækja foreldra mína í Búðardal og til að mynda.


Verkefnið Dalverjans lönd er langtímaverkefni, mun taka einhver ár, en ég var búinn að ákveða að byrja í Sælingsdalstungu, en þar er ég alinn upp.


Ég ók vestur með stóran hluta af mínu ljósmyndadóti eftir vinnu á föstudegi og kom í Búðardal um mitt kvöld. Það var allt of langt síðan ég fór þangað síðast og gott að koma til pabba og mömmu.


Á laugardagsmorgni var þungbúið, éljagangur í Búðardal og það hafði snjóað talsvert mikið um nóttina. Mér finnst gaman að mynda í sýnilegu veðri, þ.e. úrkomu, vindi eða þegar það er þungbúið eða flott skýjafar þannig að mér fannst veðrið bara fínt. Eftir að hafa útbúið nokkrar samlokur með heimabökuðu brauði mömmu og reyktum nautatungum og hellt upp á kaffi lagði ég af stað. Og keyrði beint í Sælingsdalinn. Fyrsta myndin sem ég tók var af Tungustapa. Leiksvæði ömmu minnar í Sælingsdalstungu. Eftir það ætlaði ég lengra inn í Sælingsdal, en áin hafði tekið í sundur veginn fyrir neðan Gerði þannig að ég komst ekki lengra á bíl. Ég ætlaði mér að mynda Stakkagil en sá fljótt að aðstæður voru erfiðar, gilið sást illa úr dalbotninum þannig að ég ákvað að ganga ekki inn dalinn heldur setja drónann á loft. Ég lét hann fljúga upp með hlíðinni en við fjallsbrúnina var þoka og éljagangur. Ég tók nokkrar stemmningsmyndir og myndband. Áður en ég lenti drónanum lét ég hann fljúga einn hring í kring um Tungustapa og taka myndband.



Sælingsdalsá
Sælingsdalsá


Eftir þetta fór ég heim að Laugum. Reyndar ekki alveg heim, því mér fannst eitthvað svo fallegt að sjá að snjórinn var alveg “ómengaður” ekki búið að keyra neitt né ganga á svæðinu í nýföllnum snjónum, þannig að ég fór bara að hliðinu til að skemma það ekki. Til að halda upp á að verkefnið væri hafið ákvað ég að setjast aðeins í snjóinn, drekka kaffi og borða brauðsneið. Laugar er staður sem mér þykir vænt um, enda var ég þar í skóla í 9 ár. Það var ekki alltaf auðvelt en ég á samt margar mjög góðar minningar úr honum. Verst að ég man svo lítið eftir unglingsárunum þar! Ég myndaði staðinn úr lofti, og flaug svo að Svörtuklöttum (það nafn var alltaf notað heima en Skorarklettar er nafn sem er á Örnefnaskrá). Það var gaman að fljúga lágt yfir jörðu og lyfta svo drónanum meðfram klettunum og uppfyrir þá, þar til ég var kominn upp í þokuna.



Laugar
Laugar

Svörtuklettar
Svörtuklettar

Nú var ég búinn að klára það eina sem ég var búinn að ákveða fyrir daginn - að mynda í Sælingsdal. Ég ók niður að Árbæ og stoppaði þar og velti fyrir mér hvort ég ætti að fara í Saurbæ eða á Fellsströndina. Ég beygði til hægri og stefndi á Fellsströnd. Myndaði Krosshólaborgina, sem ég var með fyrir augum fyrstu 17 ár ævi minnar, fyrst frá Hólum en svo þegar ég kom upp að henni sá ég að krummi sat á krossinum á þessum stað, sem sagt er að hafi verið bænastaður Auðar Djúpúðgu, landnámskonu í Dölum.



"Auður" á krossinum?
"Auður" á krossinum?

´
´


Ég myndaði Hrafnaklett og girðingu sem mér fannst flott í snjónum og drunganum og hélt svo áfram. Þessi hluti Hvammssveitarinnar er mjög spennandi og ég hlakka til að skoða hann vel í sumar. Þegar ég kom framhjá Kýrunnarstöðum fór að snjóa meira og var skyggni lítið sem ekkert í talsverðan tíma. Aðeins létti til við Skóga og myndaði ég þar eina vörðu en hélt svo áfram að Staðarfelli.





Mér finnst mjög fallegt að aka þessa leið, það er eins og nýr heimur opnist, allt annað landslag. Ég hef safnað myndum af hólmum og eyjum ef mér finnst lögunin vera skemmtileg. Á slatta af svoleiðis myndum, þar sem ekkert er nema hólminn, sjór og himinn. Ég tók þannig mynd af Húshólma við Staðarfell en áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn heim í Svarfaðardal, búinn að hlaða myndunum inn í tölvuna, að haförn sat á hólmanum! Og talandi um haförn, annar var á flugi utar á Fellsströndinni og stefndi inn í snjókomuna.





Ytra-Fell og nágrenni er staður sem mér hefur alltaf fundist heillandi. Birkiskógurinn, Ytrafellsmúlinn, Kjallaksstaðaáin, eyjarnar. Allt er þetta mjög fallegt. Þarna var farið að létta aðeins til og auðveldara að setja upp dróna. Þegar þarna var komið var ég búinn að mæta einum bíl frá því um morguninn. Ekki nóg með það, á þessum slóðum hætti ég að keyra í hjólförum annarra, eftir þetta hafði enginn keyrt frá því áður en fór að snjóa og Súkkudjásnið mitt dró kviðinn í talsverðan tíma, allt þar til ég var kominn á Skarðsströndina, en þar var örlítið minni snjór á veginum. Mjög gaman að vera einn á ferðinni.



Ytra-Fell
Ytra-Fell

Ytra-Fell
Ytra-Fell

Brú yfir Kjallaksstaðaá
Brú yfir Kjallaksstaðaá

Hnúksfjall
Hnúksfjall


Bergsveinn Skúlason segir í greininni “Brot úr ferðasögu frá árinu 1942” (Breiðfirðingur, apríl 1948):

“Skarðið forna í bergveggnum kvað vera hinn rétti Klofningur. — Þar var fyrrum skilarétt þessara sveita, og þar voru hengdir þjófar og aðrir illræðismenn, meðan nokkuð kvað að þeim i Dalasýslu. — Nú var þar engin rétt og enginn gálgi, né annað sem tafði för okkar; en vel má vera, að þar sé einhver slæðingur í skammdeginu!!”


Ekki var ég var við neinn draugagang, bara dásamlegt útsýni og mikla hreyfingu á skýjum.



Slæðingar á ferli?
Slæðingar á ferli?

Melafjall
Melafjall

Dagverðarnes - Hrísey
Dagverðarnes - Hrísey

Klofningsskarð
Klofningsskarð

Melar er fallegt eyðibýli og það var skemmtileg lagskipting sem ég ákvað að mynda.



Melar
Melar

Þarna var byrjað að dimma og það fannst mér eiginlega fínt. Þá verður himinninn enn drungalegri. Grafardrangur var heimsóttur og ég stoppaði hér og þar, ekki bara til að mynda fjöll og kletta heldur líka eitthvað allt annað!



Grafardrangur
Grafardrangur


Teinréttur Skarðstrendingur
Teinréttur Skarðstrendingur

Þegar ég kom að Nýp fór ég að hugsa norður í Mývatnssveit. Ég hef lært það eftir að hafa myndað ótal sinnum í Mývatnssveit að treysta ekki alltaf á landakort eða örnefnaskrár þegar ég er að skrá hjá mér örnefni þar. Þar eru mismunandi nöfn á ýmsum náttúrufyrirbærum og fólk ekki sammála um hvað skuli nota. Ég var búinn að skoða nokkur landakort og sá að Nýp var stundum skrifað Níp. Árni Björnsson skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands 2011 - Í Dali vestur:


“…Kemur enda brátt að bænum Níp hátt upp undir hlíðinni rétt utan við Nípurá. Óvissa hefur lengi verið um hvort skrifa ætti nafn bæjarins með ufsiloni eða ekki, hvort rétt mynd þess væri Nípur ellegar Nýp, hvort skrifa ætti Gníp/Gnípur eða Gnýp/Gnýpur”…. “Í Jarðabókinni 1704 er nafn bæjarins skrifað Nijp” (Árni Björnsson 2011, bls 140-141)


Nýpurhyrna er afar tignarleg og brúin yfir Nýpurá er skemmtilegur forgrunnur.



Nýpurhyrna
Nýpurhyrna


Ég hafði vonast eftir því að á slóðum vinar míns Stefáns Skafta Steinsólfssonar frá Ytri-Fagradal, væri þokkalegt skyggni, og ég gæti m.a. séð Hafratind. Svo var ekki, eins og sjá má á mynd af gömlu útihúsunum sem er rétt við þjóðveginn.



Gömul útihús í Fagradal
Gömul útihús í Fagradal

Þarna var orðið dimmt og tími til að halda áfram. Ég stoppaði þó aðeins til að mynda hesta með Stóra-Múla í bakgrunni. Saurbærinn varð að bíða betri tíma, og Svínadalurinn líka.


Stóri-Múli
Stóri-Múli

Þegar ég kom svo í Búðardal tók ég eina drungamynd, svona til að setja punktinn yfir i-ið þann daginn.



Höfnin í Búðardal
Höfnin í Búðardal





33 views0 comments

Ég er alinn upp í Sælingsdalstungu og því með Tungustapa á jörðinni. Amma mín, Helga heitin Jónsdóttir (1927-2024) var líka alin þar upp og var umhverfi stapans leikvöllur hennar. Þar má enn finna "bú" þar sem amma bjó til heimili úr litlum steinvölum og má enn sjá fólkið á heimilinu liggja undir steinasængum sínum.


Ég flaug drónanum í kring um þennan magnaða stað um daginn. Myndbandið er hér undir hlekknum:






Úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar:


Í gamla daga, fyrir mörg hundruð árum, bjó mjög ríkur bóndi í Sælingsdalstungu; hann átti nokkur börn og eru til nefndir tveir synir. Ekki vita menn hvað þeir hétu og köllum vér þá því Arnór og Svein. Þeir voru báðir efnilegir menn, en þó ólíkir. Arnór var hreystimaður og mikill fyrir sér. Sveinn var hægur og spakur og enginn hreystimaður. Eftir því voru þeir mjög ólíkir í lund; Arnór var gleðimaður og gaf sig að leikum með sveinum þar úr dalnum og mæltu þeir oft mór með sér við stapa þann er stendur niður við ána andspænis bænum að Tungu og sem kallaður er Tungustapi. Var það skemmtun þeirra á vetrum að renna sér eftir harðfenni niður af stapanum því hann er hár mjög og niður á eyrarnar í kring; gekk oft mikið á með kall og háreysti kringum Tungustapa í rökkrunum og var Arnór þar oftast fremstur í flokki. Sjaldan var Sveinn þar með. Gekk hann þá oftast í kirkju er aðrir piltar fóru til leika; oft fór hann líka einförum og dvaldi þá tíðum niður við Tungustapa. Var það mál að hann hefði mök við álfafólk sem bjó í stapanum, og nokkuð var það að hverja nýjársnótt hvarf hann svo enginn vissi hvað af honum varð. Oft kom Sveinn að máli við bróðir sinn að hann skyldi eigi gjöra svo mikla háreysti þar á stapanum, en Arnór gjörði gabb að og kvaðst eigi mundu vorkenna álfunum þó hátt væri haft. Hélt hann uppteknum hætti; en Sveinn varaði hann við því oftar og sagði að hann skyldi ábyrgjast hvað af slíku hlytist. Það bar til eitt nýjárskveld að Sveinn hvarf að vanda. Lengdist mönnum venju fremur eftir honum. Kvaðst Arnór mundu leita hans og sagði hann mundi dvelja hjá álfum niður í Stapa. Gengur Arnór á stað allt til þess hann kemur að stapanum. Veður var dimmt mjög. Veit hann ekki fyrri til en hann sér stapann opnast á þá hlið sem að bænum snýr og ljóma þar ótal ljósaraðir; heyrir hann kveða við indælan söng og skilur hann af þessu að á messu muni standa hjá álfum í stapanum. Kemur hann nú nær og sér hvar prestur fagurlega skrýddur fyrir altari og eru margsettar ljósaraðir til beggja hliða. Gengur hann þá inn um dyrnar og sér hvar Sveinn bróðir hans krýpur fyrir gráðunni og er klerkur að leggja höndur í höfuð honum með einhverjum ummælum. Það hyggur Arnór að verið sé að vígja hann einhverri vígslu því margir skrýddir menn stóðu umhverfis. Kallar hann þá til og segir: „Sveinn, kom þú, líf þitt liggur við.“ Hrekkur Sveinn þá við, stendur upp og lítur utar eftir; vill hann þá hlaupa til bróður síns. En í því kallar sá er við altarið var og segir: „Læsið kirkjudyrunum og hegnið hinum mennska manni er raskar friði vorum. En þú Sveinn hlýtur við oss að skilja og er bróðir þinn sök í því. En fyrir það að þú stóðst upp í því skyni [að] ganga til bróður þíns og mattir hans ósvífna kall meir en heilaga vígslu skalt þú niður hníga og það örendur næsta sinn er þú sérð mig hér í þessum skrúða.“ Sá Arnór þá að hinir skrýddu menn hófu Svein á loft og hvarf hann upp um steinhvelfing þá er yfir var kirkjunni. Kveður þá við dynjandi klukknahljóð og í því heyrist þys mikill inni. Hleypur hver um annan þveran til dyra. Arnór hleypur þá sem hann mátti út í myrkrið heim á leið og heyrir álfareiðina, þysið og hófasparkið á eftir sér; heyrir hann að einn í flokki þeirra er fremstir ríða kveður við raust og segir:



„Ríðum og ríðum,


það rökkvar í hlíðum;


ærum og færum


hinn arma af vegi


svo að hann eigi


sjái sól á degi,


sól á næsta degi.“



Þusti þá flokkurinn milli hans og bæjarins svo hann varð að hörfa undan. Þegar hann var kominn í brekkur nokkrar suður frá bænum og austur frá stapanum gafst hann upp og hneig máttvana niður; reið þá allur flokkurinn á hann ofan og lá hann þar eftir nær dauða en lífi. Það er frá Sveini að segja að hann kom heim eftir vökulok. Var hann daufur mjög og vildi engum segja burtveru sína, en kvað nauðsyn að leita Arnórs. Var hans leitað alla nóttina og fannst hann eigi fyrri en bóndi frá Laugum er kom til óttusöngs að Tungu gekk fram á hann þar í brekkunum sem hann lá. Var Arnór með rænu, en mjög aðframkominn; sagði hann bónda hvernig farið hefði um nóttina eins og áður er frá sagt. Ekki kvað hann tjá að flytja sig til bæjar því hann yrði eigi lífgaður. Andaðist hann þar í brekkunum og heita það síðan Banabrekkur. Aldrei varð Sveinn samur eftir þenna viðburð, hneigðist skap hans enn meira til alvöru og þunglyndis, en aldrei vissu menn hann koma nærri Álfastapa eftir þetta og aldrei sást hann nokkru sinni horfa í þá átt sem stapinn er. Gaf hann sig frá öllum veraldarumsvifum, gjörðist munkur og gekk í klaustur á Helgafelli. Var hann svo lærður maður að enginn bræðra komst til jafns við hann og svo söng hann fagurlega messu að enginn þóttist jafnfagurt heyrt hafa. Faðir hans bjó í Tungu til elli. Þegar hann var gamall orðinn tók hann sótt þunga. Það var nærri dymbildögum. Þá er hann fann hvað sér leið lét hann senda eftir Sveini út til Helgafells og bað hann koma á sinn fund. Sveinn brá skjótt við, en gat þess að skeð gæti hann kæmi eigi lífs aftur. Kom hann að Tungu laugardag fyrir páska. Var þá svo dregið af föður hans að hann mátti trauðlega mæla. Beiddi hann Svein son sinn að syngja messu á páskadag sjálfan og skipaði að bera sig þá í kirkju; kvaðst hann þar vilja andast. Sveinn var tregur til þessa, en gjörði það samt, þó með því skilyrði að enginn opnaði kirkjuna meðan á messu stæði og sagði þar á riði líf sitt. Þótti mönnum þetta kynlegt; þó gátu sumir þess til að hann enn sem fyrri vildi ekki sjá í þá átt sem stapinn var því kirkjan stóð þá á hólbarði einu hátt upp í túninu austur frá bænum og blasti stapinn við kirkjudyrum. Er nú bóndi borinn í kirkju eins og hann hafði fyrir mælt, en Sveinn skrýðist fyrir altari og hefur upp messusöng. Sögðu það allir er við voru að þeir aldrei hefðu heyrt eins sætlega sungið eða meistaralega tónað og voru allir því nær höggdofa. En er klerkur að lyktum snéri sér fram fyrir altari og hóf upp blessunarorðin yfir söfnuðinum brast á einni svipan stormbylur af vestri og hrukku við það upp dyr kirkjunnar. Varð mönnum hverft við og litið utar eftir kirkju; blöstu þá við eins og opnar dyr á stapanum og lagði þaðan út ljóma af ótal ljósaröðum, en þegar mönnum aftur var litið á prest var hann hniginn niður og var þegar örendur. Féllst mönnum mikið um þetta og þar með að bóndi hafði einnig á sömu stundu fallið liðinn fram af bekk þeim er hann lá á gagnvart altari. Logn var fyrir og eftir viðburð þenna svo öllum var augljóst að með stormbyl þann er frá stapanum kom var eigi sjálfrátt. Var þá viðstaddur bóndi sá frá Laugum er fundið hafði Arnór í brekkunum fyrri og sagði hann þá upp alla sögu. Skildu menn af því að það hefði komið fram er álfabiskupinn hafði um mælt að Sveinn skyldi dauður hníga þegar hann sæi sig næst. Nú þegar opinn var stapinn og hurð kirkjunnar hrökk upp blöstu dyrnar hver á móti annarri svo álfabiskupinn og Sveinn horfðust í augu er þeir tónuðu blessunarorðin því dyr á kirkjum álfa snúa gagnstætt dyrum á kirkjum mennskra manna (nl. til austurs). Áttu menn héraðsfund um mál þetta og var það afráðið að flytja skyldi kirkjuna niður af hólbarðinu nær bænum, í kvos hjá læk nokkrum. Með því var bærinn milli stapans og kirkjudyra svo aldrei síðan hefur presti þar verið unnt að sjá frá altari gegnum kirkjudyr vestur í Álfastapa enda hafa slík býsn eigi skeð síðan þetta var.

59 views0 comments

Yfirlit, hvað ætla ég að gera?

Ég ætla að finna og fanga fegurð Dalasýslu með listrænni landslags- og náttúruljósmyndun. Hluti myndanna verður gefinn einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum í Dalasýslu, til notkunar á heimasíðum, samfélagsmiðlum eða auglýsingum. Samhliða landslagsljósmyndun mun ég einblína á fuglaljósmyndun og skráningu fuglategunda í Dölum. Ljósmyndasýning verður haldin árlega á meðan verkefni stendur. Einnig stefnt á pop-up tónleikar og fyrirlestra um fugla og náttúru Dala. Hugmyndin er að halda þessa viðburði í kirkjum í Dölum.



´
´

Hvernig varð verkefnið til?

Ég held að margt fólk á mínum aldri, komið yfir fimmtugt, kannist við að skyndilega hafi orðið til áhugi á æskuslóðum, ættfræði og öðru sem tengist æsku og uppvexti. Nákvæmlega það gerðist hjá mér. Í ágúst sl kvaddi ég ömmu mína, 97 ára gamla. Sem organisti að atvinnu tók ég hlutverk mitt við útför hennar mjög alvarlega og ákvað að velja að mestu tónlist sem tengdist Dalasýslu, en amma mín var alin upp í Sælingsdalstungu og hóf svo sjálf búskap þar með afa mínum á 6. áratug síðustu aldar. Þegar ég var að grúska í textum Dalaskáldanna kviknaði einhver áhugi hjá mér að skoða meira en bara textana. Ég fór að lesa bækur um Dalina, skoða vefsíður og ræða um byggðir Dalasýslu við foreldra mína, sem eru búsettir í Búðardal. Pabbi minn hringdi í ömmu mína flesta daga síðustu árin til að virkja hugsun hennar með því að láta hana rifja upp gamla tíma, en amma var gríðarlega fróð um fólk og staði í Dölum. Pabbi græddi mikið á þessu sjálfur, mikinn fróðleik um æskuslóðir hans og eldri kynslóðir. Nú er ég að gera það sama, safna í fróleiksbankann. Hugmyndin um að skrásetja fegurð Dalasýslu í ljósmyndum fæddist hægt og rólega og verkefnið stækkaði eftir því sem ég lá meira í bókum og landakortum. Ég fékk pabba í lið með mér, hann tók að sér að safna upplýsingum um staði, skrifa niður ýmislegt sem hann man eftir, safna örnefnum og tala við bændur og landeigendur í Dölum til að fá upplýsingar og sögur frá þeim og til að fá leyfi fyrir ferðum mínum á bújörðum. Ég setti inn færslu í Facebookhópinn Dalirnir okkar og fékk alveg hreint stórkostleg viðbrögð, mjög mikla hvatningu og jákvæðni, hugmyndir og ábendingar og boð um að aðstoða mig, ganga með mér, sigla með mér, lána mér hús, báta og bústaði o.s.frv. Mér þótti afar vænt um þessi sterku viðbrögð sem komu mér mjög á óvart, ekki aðeins á síðunni, heldur fékk ég einnig mikinn fjölda tölvupósta, skilaboða og símhringinga.


Konseptið:

Ég lít á verkefnið sem endalaust en ég set mér þau markmið að vera búinn að skrásetja helstu staði í allri sýslunni eftir 5 ár. Ég mun þó einbeita mér að vestursýslunni fyrstu 2-3 árin. Til að byrja með verða myndirnar aðgengilegar á heimasíðunni https://www.eythoringi.com/dalir Þegar verkefnið er komið vel af stað mun ég búa til heimasíðu fyrir verkefnið. Hvert ár verður gert upp með ljósmyndasýningu í Dalasýslu þar sem sem ég mun verða með bland af hágæða útprentunum, innrömmuðum og prentuðum á striga eða foam plötur og myndum sem verða á hágæða skjá, sem er sérstaklega hannaður fyrir myndasýningar. Einnig stefni ég á “pop-up” viðburði í kirkjum í Dalasýslu þegar ég er á ljósmyndaferðum, en þar mun ég fjalla um fugla á svæðinu og um verkefnið, flytja tónlist af svæðinu, stundum með aðstoð eiginkonu minnar, Elvýjar G. Hreinsdóttur, og vera með litla myndasýningu á skjá. Titill verkefnisins, Dalverjans lönd, er tekinn úr ljóði Hallgríms Jónssonar frá Ljárskógum, Undir Dalanna sól. Fyrri hluti verkefnisins, vesturhluti sýslunnar hefur fengið nafnið Skyggnst um af Skeggöxl, þar sem fjallið Skeggöxl er e.k. miðpunktur vestursýslunnar, þaðan liggja ótal dalir í allar áttir.


Krosshólaborg
Krosshólaborg

Ég mun ljósmynda:

• Landslag - Fjöll, eyjar, ár, fossar, klettar o.s.frv. Ekki bara dæmigerðar víðlinsumyndir, heldur einnig nota dróna, aðdráttarlinsur o.fl.

• Náttúrufyrirbæri - Norðurljós, vatnavexti, úrkomu, sólsetur, skýjafar, vind o.s.frv.

• Dýralíf - Ég hef mjög mikla reynslu af fugla- og spendýraljósmyndun og fuglar og selir í Dölum vekja áhuga minn. Þeir munu svo sannarlega fá ríkulegan sess í safninu og ég mun í leiðinni halda dagbók þar sem ég skrái fuglalíf í Dölum, en ég hef undanfarin 15 ár tekið þátt í fjölda fuglatalninga- og skráningarverkefnum í sjálfboðavinnu, bæði einn og með fuglafræðingum og öðru áhugafólki. Mér hefur verið treyst til að mynda haferni, fálka og þórshana á varpstöðvum og hef fengið leyfi til þess frá Umhverfisstofnun. Fegurð Dalanna er ekki fullkomnlega skráð nema haförninn sé myndaður. Á fyrirlestrum tengdum verkefninu mun ég ræða sérstaklega um fuglalíf í Dölum og fræða fólk um fuglategundir.

• Minni viðfangsefni - Gróður, steinar, pollar, skordýr o.fl.

• Kirkjur - Kirkjur sýslunnar fá sér meðferð, enda ólíkar og með ólíka sögu. Ég hef áhuga á að fá að nýta þær í verkefninu, halda í þeim viðburði sem innihalda myndasýningar af skjá, tónlist og fyrirlestra.


• Hlutir sem ég mun mynda en ekki leggja höfuðáherslu á:

Sveitabæir, rústir, mannvirkjaleifar, mannfögnuðir, mannlíf á fallegum stöðum

• Það sem ég mun ekki mynda nema að viðfangsefnið sé fallegt:

Sögustaðir. Sögu Dalasýslu hefur verið gerð góð skil í bókum, skiltum, námsefni o.fl. Ég ákvað að það væri of mikil vinna að skrá sögustaðina í myndum, nema um sé að ræða staði sem eru sérstaklega áhugaverðir ljósmyndalega.


Ég mun mynda fyrirbærin á öllum árstíðum.


Haförn í Dölum
Haförn í Dölum

Eru góð myndefni í Dalasýslu?

Já! Ég hef hingað til einblínt á Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur í landslagsmyndum mínum. Þar er afar fjölbreytt og kraftmikið landslag. Stærstu fossar landsins, mörg hæstu og tignarlegustu fjöllin, háhitasvæði, gríðarleg standbjörg fram í sjó og miklar jökulár. Það er því skemmtileg áskorun fyrir mig að fara að mynda Dalina, þar sem fjöllin eru ávöl og mun lægri en fyrir norðan, fossar og ár eru mun minni en Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót, og engin virk eldfjöll, hraun o.fl. En það er svo sannarlega mikið af einstaklega fallegum stöðum í Dölum, ótrúlega litrík líparítsvæði, gullfallegar klettamyndanir, einstakar eyjar og strandlandslag, magnaðir klettar og óviðjafnanlegt útsýni yfir Breiðafjörð. Í Dölum er líka kvöldbirta á sumrin sem er einstök. Því miður sjá fæstir það besta og fallegasta í Dalasýslu. Það er von mín að vandaðar ljósmyndir af svæðinu aðstoði við að breyta því og hvetji áhugasamt útivistarfólk, ljósmyndara og almennt ferðafólk til að staldra við í Dölum og finna fegurðina sem þar má finna.


Reglur sem ég set mér:

• Ég mun fylgja almennum siðareglum ljósmyndara

• Ég mun alltaf biðja um leyfi landeigenda og láta þá vita ef ég er að þvælast um jarðir þeirra.

• Ég mun aldrei aka utan vegar, ekki kveikja eld, ekki skilja eftir mig rusl, ekki trufla varp fugla og ekki trufla búfénað.

• Ég mun ekki birta opinberlega hnit á ljósmyndum, svo ferðamenn fari ekki að sækja inn á jarðir ef myndir skyldu fara í einhverja netdreifingu.

• Ég mun spyrja landeigundur og/eða ábúendur hvort þeir hafi eitthvað á móti því að ég skrifi hvar myndir eru teknar. Ef lagst er gegn því þá mun ég ekki birta þær myndir með nafni eða staðsetningu.

• Ég mun ekki fljúga dróna yfir búfé eða fólki (Er með drónapróf frá Samgöngustofu)



Munu Dalamenn og aðrir geta nýtt myndirnar?

• Ég mun vera með nokkrar stafrænar myndir, af helstu og þekktustu stöðum, sem hver sem er getur notað án endurgjalds í auglýsingaskyni, eða á heimasíðum.

• Ég mun vera með allar myndir til sölu, tilbúnar á vegg, prentaðar á hágæða ljósmyndapappír eða striga og svo að sjálfsögðu vefmyndir eða annað sem beðið er um.

• Ég mun taka loftmyndir af bæjum þar sem ég hef verið að mynda til að senda ábúendum stafrænt í þakklætisskyni. Myndirnar verða í vefupplausnum. Myndirnar fá þeir sér að kostnaðarlausu og geta notað til að skreyta samfélagsmiðla, eða til að nota í kynningarstarfi, t.d. til að kynna afurðir beint frá býli, ferða þjónustu eða annað.


Annað sem ég stefni á að gera, ef tími gefst:

• Ég hef áhuga á að taka upp landslagsmyndbönd og setja á YouTube síðu mína. Mun þar setja tónlist í eigin flutningi við, helst tónlist tengda Dalasýslu.

• Ég hef áhuga að vera með myndbandaspjall á samfélagsmiðlum um verkefnið, segja frá stöðum og upplifunum.

• Ég stefni á að vera með blog á heimasíðu minni eða samfélagsmiðlum

• Ég hef áhuga á að mynda áhugaverða og myndvæna karaktera á heimaslóðum í fallegu umhverfi

2 views0 comments
bottom of page