Fyrsta ferðin vestur í Dali til að taka myndir í verkefnið Dalverjans lönd.
Það var hálfgerð skyndiákvörðun að fara vestur í lok janúar. Ég átti fríhelgi og notaði tækifærið til að fara að heimsækja foreldra mína í Búðardal og til að mynda.
Verkefnið Dalverjans lönd er langtímaverkefni, mun taka einhver ár, en ég var búinn að ákveða að byrja í Sælingsdalstungu, en þar er ég alinn upp.
Ég ók vestur með stóran hluta af mínu ljósmyndadóti eftir vinnu á föstudegi og kom í Búðardal um mitt kvöld. Það var allt of langt síðan ég fór þangað síðast og gott að koma til pabba og mömmu.
Á laugardagsmorgni var þungbúið, éljagangur í Búðardal og það hafði snjóað talsvert mikið um nóttina. Mér finnst gaman að mynda í sýnilegu veðri, þ.e. úrkomu, vindi eða þegar það er þungbúið eða flott skýjafar þannig að mér fannst veðrið bara fínt. Eftir að hafa útbúið nokkrar samlokur með heimabökuðu brauði mömmu og reyktum nautatungum og hellt upp á kaffi lagði ég af stað. Og keyrði beint í Sælingsdalinn. Fyrsta myndin sem ég tók var af Tungustapa. Leiksvæði ömmu minnar í Sælingsdalstungu. Eftir það ætlaði ég lengra inn í Sælingsdal, en áin hafði tekið í sundur veginn fyrir neðan Gerði þannig að ég komst ekki lengra á bíl. Ég ætlaði mér að mynda Stakkagil en sá fljótt að aðstæður voru erfiðar, gilið sást illa úr dalbotninum þannig að ég ákvað að ganga ekki inn dalinn heldur setja drónann á loft. Ég lét hann fljúga upp með hlíðinni en við fjallsbrúnina var þoka og éljagangur. Ég tók nokkrar stemmningsmyndir og myndband. Áður en ég lenti drónanum lét ég hann fljúga einn hring í kring um Tungustapa og taka myndband.

Eftir þetta fór ég heim að Laugum. Reyndar ekki alveg heim, því mér fannst eitthvað svo fallegt að sjá að snjórinn var alveg “ómengaður” ekki búið að keyra neitt né ganga á svæðinu í nýföllnum snjónum, þannig að ég fór bara að hliðinu til að skemma það ekki. Til að halda upp á að verkefnið væri hafið ákvað ég að setjast aðeins í snjóinn, drekka kaffi og borða brauðsneið. Laugar er staður sem mér þykir vænt um, enda var ég þar í skóla í 9 ár. Það var ekki alltaf auðvelt en ég á samt margar mjög góðar minningar úr honum. Verst að ég man svo lítið eftir unglingsárunum þar! Ég myndaði staðinn úr lofti, og flaug svo að Svörtuklöttum (það nafn var alltaf notað heima en Skorarklettar er nafn sem er á Örnefnaskrá). Það var gaman að fljúga lágt yfir jörðu og lyfta svo drónanum meðfram klettunum og uppfyrir þá, þar til ég var kominn upp í þokuna.


Nú var ég búinn að klára það eina sem ég var búinn að ákveða fyrir daginn - að mynda í Sælingsdal. Ég ók niður að Árbæ og stoppaði þar og velti fyrir mér hvort ég ætti að fara í Saurbæ eða á Fellsströndina. Ég beygði til hægri og stefndi á Fellsströnd. Myndaði Krosshólaborgina, sem ég var með fyrir augum fyrstu 17 ár ævi minnar, fyrst frá Hólum en svo þegar ég kom upp að henni sá ég að krummi sat á krossinum á þessum stað, sem sagt er að hafi verið bænastaður Auðar Djúpúðgu, landnámskonu í Dölum.


Ég myndaði Hrafnaklett og girðingu sem mér fannst flott í snjónum og drunganum og hélt svo áfram. Þessi hluti Hvammssveitarinnar er mjög spennandi og ég hlakka til að skoða hann vel í sumar. Þegar ég kom framhjá Kýrunnarstöðum fór að snjóa meira og var skyggni lítið sem ekkert í talsverðan tíma. Aðeins létti til við Skóga og myndaði ég þar eina vörðu en hélt svo áfram að Staðarfelli.

Mér finnst mjög fallegt að aka þessa leið, það er eins og nýr heimur opnist, allt annað landslag. Ég hef safnað myndum af hólmum og eyjum ef mér finnst lögunin vera skemmtileg. Á slatta af svoleiðis myndum, þar sem ekkert er nema hólminn, sjór og himinn. Ég tók þannig mynd af Húshólma við Staðarfell en áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn heim í Svarfaðardal, búinn að hlaða myndunum inn í tölvuna, að haförn sat á hólmanum! Og talandi um haförn, annar var á flugi utar á Fellsströndinni og stefndi inn í snjókomuna.


Ytra-Fell og nágrenni er staður sem mér hefur alltaf fundist heillandi. Birkiskógurinn, Ytrafellsmúlinn, Kjallaksstaðaáin, eyjarnar. Allt er þetta mjög fallegt. Þarna var farið að létta aðeins til og auðveldara að setja upp dróna. Þegar þarna var komið var ég búinn að mæta einum bíl frá því um morguninn. Ekki nóg með það, á þessum slóðum hætti ég að keyra í hjólförum annarra, eftir þetta hafði enginn keyrt frá því áður en fór að snjóa og Súkkudjásnið mitt dró kviðinn í talsverðan tíma, allt þar til ég var kominn á Skarðsströndina, en þar var örlítið minni snjór á veginum. Mjög gaman að vera einn á ferðinni.




Bergsveinn Skúlason segir í greininni “Brot úr ferðasögu frá árinu 1942” (Breiðfirðingur, apríl 1948):
“Skarðið forna í bergveggnum kvað vera hinn rétti Klofningur. — Þar var fyrrum skilarétt þessara sveita, og þar voru hengdir þjófar og aðrir illræðismenn, meðan nokkuð kvað að þeim i Dalasýslu. — Nú var þar engin rétt og enginn gálgi, né annað sem tafði för okkar; en vel má vera, að þar sé einhver slæðingur í skammdeginu!!”
Ekki var ég var við neinn draugagang, bara dásamlegt útsýni og mikla hreyfingu á skýjum.




Melar er fallegt eyðibýli og það var skemmtileg lagskipting sem ég ákvað að mynda.

Þarna var byrjað að dimma og það fannst mér eiginlega fínt. Þá verður himinninn enn drungalegri. Grafardrangur var heimsóttur og ég stoppaði hér og þar, ekki bara til að mynda fjöll og kletta heldur líka eitthvað allt annað!


Þegar ég kom að Nýp fór ég að hugsa norður í Mývatnssveit. Ég hef lært það eftir að hafa myndað ótal sinnum í Mývatnssveit að treysta ekki alltaf á landakort eða örnefnaskrár þegar ég er að skrá hjá mér örnefni þar. Þar eru mismunandi nöfn á ýmsum náttúrufyrirbærum og fólk ekki sammála um hvað skuli nota. Ég var búinn að skoða nokkur landakort og sá að Nýp var stundum skrifað Níp. Árni Björnsson skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands 2011 - Í Dali vestur:
“…Kemur enda brátt að bænum Níp hátt upp undir hlíðinni rétt utan við Nípurá. Óvissa hefur lengi verið um hvort skrifa ætti nafn bæjarins með ufsiloni eða ekki, hvort rétt mynd þess væri Nípur ellegar Nýp, hvort skrifa ætti Gníp/Gnípur eða Gnýp/Gnýpur”…. “Í Jarðabókinni 1704 er nafn bæjarins skrifað Nijp” (Árni Björnsson 2011, bls 140-141)
Nýpurhyrna er afar tignarleg og brúin yfir Nýpurá er skemmtilegur forgrunnur.

Ég hafði vonast eftir því að á slóðum vinar míns Stefáns Skafta Steinsólfssonar frá Ytri-Fagradal, væri þokkalegt skyggni, og ég gæti m.a. séð Hafratind. Svo var ekki, eins og sjá má á mynd af gömlu útihúsunum sem er rétt við þjóðveginn.

Þarna var orðið dimmt og tími til að halda áfram. Ég stoppaði þó aðeins til að mynda hesta með Stóra-Múla í bakgrunni. Saurbærinn varð að bíða betri tíma, og Svínadalurinn líka.

Þegar ég kom svo í Búðardal tók ég eina drungamynd, svona til að setja punktinn yfir i-ið þann daginn.
