top of page

Haförn kemur með rauðmaga og kjóaunga í hreiður

1300 km akstur, 3 dagar, 11 klst liggjandi í tjaldi fyrir 6 sekúndur



Eftirfarandi frásögn var rituð niður fyrir kaupanda af útprentun af þessari mynd


Það þarf sérstakt leyfi frá Umhverfisstofnun til að að nálgast varpstaði hafarna, en óheimilt er samkvæmt lögum að fara nær varpi en 500m. Ég stefndi á að fara í arnarvarp sumarið 2021 og sótti um leyfi til þess í lok árs 2020 og leyfi fékkst nokkrum mánuðum síðar. Afar strangar reglur fylgja leyfinu. Ekki má vera hægt að greina staðsetningu á ljósmyndum, ekki má segja neinum frá varpstað, óheimilt er að koma fyrir felubúnaði þannig að hann sjáist úr byggð o.s.frv.


Sumarið áður hafði ég einnig fengið leyfi til að mynda haferni, en þá fær maður að fylgja merkingarmönnum í hreiður. Það var stórkostleg ferð og dugði það mér það árið. Ekki er hægt að mynda erni í slíkum ferðum öðruvísi en á flugi eða úr mikill fjarlægð, en það tekur örninn marga klukkutíma að treysta sér til að koma í hreiður eftir að ró hans hefur verið raskað.


Sumarið 2021 byrjaði ferlið til að komast í hreiður á því að ég aðstoðaði merkingarmenn við merkingar á hafarnarungum í Breiðafjarðareyjum. Ók ég frá Akureyri í Stykkishólm, þar sem ég gisti á tjaldstæði í lúsmýsskýi nóttina fyrir merkingarferðina. Snemma morguninn eftir var lagt af stað og farið í fjölmörg hreiður og ungar merktir og fæðuleifar skoðaðar. Þar sást greinilega hversu mikill hluti fæðu arnarins er fiskur.




Eftir langan og vel heppnaðan dag komum við í land og ræddi ég við ábyrgðaraðila hafarnarstofnsins um möguleika á að fara einn í hreiður. Það leyfi fékk ég góðfúslega, enda búinn að sanna mig, sýna að ég væri traustsins verður, en hafarnarvarp er gríðarlega viðkvæmt. Eftir að hafa rætt um staðsetningar hreiðra á Vesturlandi og Vestfjörðum og aðstöðu til að koma upp felutjaldi, komu bara tvö hreiður til greina. Þegar ég fékk nánari upplýsingar um þessi tvö hreiður kom í ljós að það vantaði fjaðrir í væng kvenfuglsins í öðru hreiðrinu auk þess sem goggurinn á henni var brotinn. Því var í raun bara eitt hreiður sem kom til greina í mínum huga. Það hreiður var alllangt uppi á heiði. Veðurspá var óhagstæð þennan daginn og því fór ég aftur heim til Akureyrar, með nokkra tugi lúsmýsbita á bringu og baki og ansi mikið af flóabitum á höndum eftir að hafa verið að grafa eftir fæðuleifum í hreiðrunum.


Ég fylgdist vel með veðurspá og þegar réttar aðstæður virtust vera í kortunum ákvað ég að keyra vestur.


Ég hafði keypt mér nýtt felutjald í verkefnið, því ég vissi að hreiðrið væri upp á hól og aðstæður væru þannig að ég myndi þurfa að vera frekar nálægt hreiðrinu. Ég vildi ekki valda fuglunum óþarfa ónæði með því að vera í háu tjaldi sem myndi blakta mikið í vindinum. Ég fékk nýja tjaldið kvöldið fyrir brottför og prófaði það úti á túni á milli húsa hér á Akureyri. Mér fannst tjaldið enn þrengra en ég hafði séð á myndum og skrítin hönnun á því, en það var aðeins um 60-70 cm hátt. Nágrannarnir sáust úti í glugga með símann á lofti að taka myndir af mér að vera að skríða inn í tjaldið þarna á lóðinni. Væntanlega hef ég litið undarlega út.




Þótt ég hafi mikla reynslu af því að fela mig fyrir fuglum og mynda við hreiður, þá hafði ég aldrei farið í hafarnarhreiður einn. Ég hafði því samband við góða vini sem hafa mikla reynslu af hafarnarmyndatökum. Þau ráðlögðu mér að þurrka mig upp, því ég yrði lengi í tjaldinu. Fullorðinu fuglarnir eru þannig að ef þau verða vör við mannaferðir þá líða amk 4 klst þar til þau nálgast hreiður sitt aftur. Þannig að ég átti að drekka lítinn vökva svo ég þyrfti ekki að kasta vatni daginn eftir. Ég hlýddi því…. fékk mér reyndar einn stóran bjór um kvöldið. Já og svo 3 kaffibolla með morgunmatnum, sem var reyndar um miðja nótt. Ég stoppaði svo á Blönduósi og fékk mér meira kaffi.


Ég reyni eins og ég get að skilja eitthvað eftir í byggðunum sem ég heimsæki þegar ég mynda. T.d. kaupi ég mér nánast alltaf nesti þar sem ég er að mynda. Það gerði ég í þetta skiptið, keypti mér dýrindis veitingar, sviðasultu, drykkjarjógúrt, appelsín o.s.frv. Og svo fékk ég að setja heitt vatn á kaffibrúsann minn.


Þar sem ég má ekki láta neinn annan en landeiganda vita af ferðum mínum þurfti ég að laumast fram hjá bæ í nágrenni hreiðursins og síða dóla lengst upp á heiði á grjótslóða sem var á köflum ósýnilegur. Þegar ég var kominn langt upp á fjall tók við talsvert löng ganga með þungan myndavélabúnað, felutjald og nesti.

Það var mjög hlýtt þennan daginn og um morguninn var hitinn kominn upp í 18 stig og birtan var orðin óhagstæð. En þar sem ég var búinn að leggja mikið á mig ákvað ég að hætta ekki við. Gangan var öll upp í móti og þegar ég var kominn að hreiðrinu var ég orðinn rennandi blautur af svita og mjög þyrstur. Þannig að ég drakk eina drykkjarjógúrt áður en ég skellti felutjaldinu þrönga upp í aðeins um 35m fjarlægð frá hreiðrinu. Það var annað hvort að vera þar eða í um 200m fjarlægð sem er allt of langt. Ungarnir voru rólegir og fullorðnu fuglarnir ekki sjáanlegir. Þannig að ég flýtti mér við uppsetninguna. Ofan á felutjaldið setti ég svo þungt felunet til að minnka vindhreyfinguna enn meira.


Ég sturtaði í mig einum sterkum kaffi og kom mér fyrir inni í tjaldinu. Rennandi sveittur í hitanum sem var án efa kominn í 20 gráður og sterk sólin skein á dökkt tjaldið, sem var þar að auki svart að innan.

Engin leið var að setjast upp í þessu tjaldi og aðstaðan afar erfið, þar sem ég þurfti að liggja á maganum og horfa í gegn um myndavélina með báðar hendur fyrir framan mig. Það reyndi gríðarlega mikið á háls og herðar.


Ég vissi að ég hefði aðeins nokkrar sekúndur til að bregðast við ef ég heyrði ungana kalla á mat og ég vissi líka að ég væri það nálægt hreiðrinu að ég gæti hreinlega lent í því að ná ekki mynd af öllum fullorðna fuglinum, að vængirnir myndu lenda utan rammans. Svo voru alltaf líkur á því að örninn kæmi á hlið í hreiðrið eða jafnvel snéri bakinu í mig þegar hann kæmi og þá myndi ég ekki ná neinni mynd. En ég reiknaði út að miðað við vindátt og sólarstöðu þá væru mestu líkurnar á því að hann kæmi í hreiðrið úr ákveðinni átt og valdi ég stað fyrir tjaldið í samræmi við það.


Hófst þá afar spennandi biðin. Ungarnir sofnuðu fljótt eftir að ég fór í tjaldið og horfði ég á sofandi ungana næstu klukkustundirnar. Hitastigið í tjaldinu var orðið óbærilegt og byrjaði ég á því að fara úr sokkum og peysu, því næst úr stuttermabolnum og að lokum fór ég úr buxunum. Ég giska á að hitinn í tjaldinu hafi verið yfir 30 stig. Þar sem ég lá sveittur í þröngu tjaldinu á nærbuxunum einum klæða kom að því sem ekki mátti gerast. Ég gat eiginlega ekki annað en kastað af mér vatni, því ég var svo vitlaus að vera búinn að drekka bjór, 5 kaffibolla og drykkjarjógúrt síðustu klukkustundirnar. Þarna voru liðnir 4 tímar frá því ég fór í tjaldið og ég vissi að ef ég færi út úr tjaldinu myndu fullorðnu fuglarnir sjá mig og ekki koma í hreiðrið í amk fjóra tíma í viðbót. Þannig að þarna voru góð ráð dýr. Þannig að á einhvern óskiljanlegan hátt tókst mér að pissa pínulítið í drykkjarjógúrtfernuna sem ég var með mér. Í 60-70cm háa tjaldinu…. liggjandi. Þótt fernan taki ansi lítið, þá var þetta ákveðinn léttir.


Klukkustund síðar heyrði ég og sá annan ungann kalla á mat!





Og þvílík spenna og sýn þegar fullorðni fuglinn birtist ca 10 sekúndum síðar, beint á móti mér í fullkomnu sjónarhorni! Ég treysti algjörlega á mjög öflugt fókuskerfi myndavélarinnar og vandaði mig við að ná öllum fuglinum í mynd, sem rétt slapp. Fuglinn kom með sínu ógnarmikla vænghafi (á þriðja meter) með kjóaunga og rauðmaga í klónum. Settist, sleppti bráðinni, leit örsnöggt á ungana.....




....og hóf sig strax aftur á loft. Þetta tók í heild 6 sekúndur.





Spennan var óbærileg þegar kom að því að sjá hvort fókuskerfið hefði virkað, en sem betur fer voru myndirnar í fókus. Mikil tíbrá var í lofti vegna hitans og ekki sjálfgefið að myndirnar væru skarpar. Ég hafði reyndar verið svo heppinn að það var ekki heiðskírt lengur og þunn skýjahulan minnkaði aðeins harða skuggana sem höfðu verið fram að þessu.


Ég lá þarna og naut þess að sjá ungana tæta í sig rauðmagann, sem var greinilega meira spennandi en kjóinn. (Sjá myndband á icelandicbirdvideos.com)





Stuttu síðar var ákveðið spennufall og þá kom í ljós að 250ml sem ég hafði tappað af var alls ekki nóg. Kvalirnar voru enn meiri en fyrr um daginn. Þannig að ég tók áhættuna, tæmdi appelsínflöskuna út um dyrnar á tjaldinu. Þar voru amk 500ml… Að reyna að pissa í appelsínflösku er ólýsanlega erfitt þegar maður er liggjandi. Ég þurfti að fara í einskonar planka og allt gekk þetta vel. Þegar athöfninni var lokið skellti ég mér niður á tjaldbotninn… og þá gerðist eitthvað skrítið. Ég fann eitthvað blautt og heitt skvettast yfir rasskinnarnar á mér. En ég fattaði fljótt hvað það var. Sviðasulta verður nefnilega fljótandi í þessum hita og ég lagðist ofan á hana og sprengdi pakkninguna þannig að hún skvettist yfir mig allan….


Ég lá þarna í eina 5-6 tíma í viðbót, angandi af sviðasultu, en ekki komu fullorðnu fuglarnir aftur og ungarnir sváfu mest allan tímann. Ég varð líka meir og meir pirraður á hönnunina á þessu felutjaldi þar sem ég lá á fiberstöngunum, þar sem þær voru í hring. Það var óþægilegt í 11 klst.


Um kvöldið ákvað ég að nóg væri komið og skreið ég út úr tjaldinu og sá þar annan fullorðna fuglinn sitja eina 150 metra frá og fylgjast með. Ég reif tjaldið niður í flýti og flýtti mér í burtu til að raska ekki ró fuglanna meir. Fór ekki alveg að hreiðrinu, en ég hef það fyrir reglu að fara ekki alveg að hreiðrum þegar ég er að mynda við hreiður. Ég tel að það sé óþarfa álag fyrir fuglana. Ég keyrði til baka til Akureyrar um nóttina og morguninn eftir fór ég að þrífa sviðasultuna úr tjaldinu. Þá kom í ljós að ég átti að kippa í sundur fíberstöngunum, þannig að tjaldið var í raun svolítið hærra, rúmbetra og alls ekki með stangirnar á botninum….


Það hefði verið auðveldara að pissa ef ég hefði sett tjaldið rétt saman!


Glaður með kaffibollann eftir veruna í tjaldinu



Eyþór Ingi Jónsson

472 views0 comments

Á morgun mun ég halda fyrirlestur fyrir góða vini í Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit. Þetta er í þriðja sinn sem þau bjóða mér í heimsókn. Virkilega gaman að heimsækja þetta skemmtilega fólk, en þau hittast í Hrafnagili.


Áður hef ég fjallað um fugla og svo Eyjafjörð, en núna ætla ég að vera með myndasýningu úr Þingeyjarsýslum, en ég tel að engin sýsla á landinu skarti eins fjölbreyttu og stórkostlegu landslagi og náttúru.


Hér fyrir neðan eru myndirnar ekki í neinni sérstakri röð, en á morgun mun ég í huganum leggja af stað frá Akureyri og fara stóran hring.




23 views0 comments

Ég fjárfesti í dásamlegri myndavél í fyrra. Sú heitir Canon R5 og er fyrsta speglalausa vélin sem ég eignast. Ég hef mest verið að mynda landslag í vetur og gæði vélarinnar eru mögnuð þar. En mig langar til að tala um hversu magnað fókuskerfið er fyrir svona dýraljósmyndunarkall eins og mig. Ég hef lítið myndað af fuglum og spendýrum ennþá, en get ekki beðið eftir að reyna enn meira á vélina og sjá útkomuna. Eins með myndböndin. Smelli inn dæmum hér á síðuna þegar ég hef skoðað þau betur.


Fyrsta fuglamyndin sem ég tók á þessa vél. Þrátt fyrir lítinn fugl með dökk augu og dökkt í kring um þau var vélin ekki í vandræðum með að finna augun.


Snjókoma. Snjókoma getur verið erfið fyrir fókuskerfi. Það fer svolítið eftir hvernig maður stillir fókuskerfin, hvort vélin fari að elta snjókornin, en á R5 er þetta akkúrat ekkert vandamál.



Þessi er tekin á móti kvöldsól um daginn.



Í gær fór ég að mynda seli. Nokkuð úfinn sjór en fókuskerfið og dásamlega linsan mín, Canon 400mm f/2,8 II eru fullkomið par. Á selamyndunum er ég með tvöfaldara, þannig að þetta er 800mm aðdráttur. Ég tók um 100 myndir af selunum og nánast allar í 100% fókus.





Og fýll í snjókomu. Hélt á linsunni í bölvuðu roki. Truflaði kerfið ekkert.





Ég nota alltaf Back-focus button í allri ljósmyndun. Ég fékk tips frá Facebookvini um að stilla sitt hvora fókusstillinguna á tvo takka aftan á vélinni. Þannig að þegar ég held öðrum inni er það fókuskerfi sem vélin er stillt á (hjá mér yfirleitt animal face detection) virkt og ef ég held hinum inni þá er einn punktur virkur, sem kemur sér mjög vel t.d. ef maður er að mynda í gegn um trjágreinar o.fl.


Sem sagt, ég er afar ánægður með fókuskerfið. Nú byrjar nýtt tímabil í dýraljósmynduninni hjá mér.

170 views0 comments
bottom of page