top of page

Ég fékk veikina fyrir einum 5 árum síðan. Hún er ólæknandi. Einn af fylgikvillum Flateyjarveikinnar er mikil óeirð á miðjum vetri. Maður getur ekki beðið eftir því að komast næst út í Flatey á Breiðafirði. Maður fer að hugsa um Flatey, skoða Flateyjarmyndirnar, hlusta á upptökur af Flateyjarhljóðum og skipuleggja næstu Flateyjarferð.


Það er svo ótal margt dásamlegt við þennan stað. Náttúra og dýralíf auðvitað, fegurð og birta. En ekki síður fólkið. Flateyjarbændur, ferðamenn, hótelstarfsmenn og svo allir þeir sem eiga eða hafa aðgang að húsum í Flatey. Frábært fólk sem gaman er að hitta. Svo koma þangað erlendir vísindamenn og ljósmyndarar til að vinna með okkur köllunum.


Og hverjir eru kallarnir. Jú, ég er svo heppinn að hafa kynnst tveimur eðalmönnum, þeim Ævari Petersen og Sverri Thorstensen. Þeir eru ekki bara fuglavísindamenn af lífi og sál heldur hreint ótrúlega magnaðir menn sem er sérstaklega gaman að umgangast.


Ég hlakka mjög mikið til að fara í Flatey í júní næsta sumar.


Hér er mynd sem einn Flateyjarsjúklingur tók. Ljósmyndarinn frábæri og kokkurinn Friðgeir Trausti Helgason tók þessa mynd af okkur Ævari í hitteðfyrra.





Nokkrar myndir úr Flateyjarferðum mínum má sjá hér:



62 views0 comments

Veturinn, vatnið og viðurinn(6 1/2 mínúta af kyrrð og fegurð)

Melankólíska hliðin á mér er hrifin af vetrinum, myrkrinu og kuldanum. Ég hlusta gjarnan á og flyt rólega tónlist og leita að myndefnum sem eru dökk og köld. Eimannaleikinn er fallegur, það virðist stundum vera svo langt á milli lifandi lífvera.Vatn og viður eru mér hugleikin sem viðfangsefni. Mér finnst gott að hafa vatn í einhverri mynd á ljósmyndum mínum. Það má renna, vera stillt eða vera frosið. Einnig er viðurinn mikilvægur, en skógurinn er endalaus uppspretta hugmynda og viðfangsefna.

Einhver fallegasta hljómplata sem ég á er platan Innst inni, sem félagarnir Eyþór Gunnarsson píanóleikari og Tómas Ragnar Einarsson bassaleikari spiluðu inn á. Lögin eru öll eftir Tómas. Platan er sannkallað meistaraverk og þar mætast vatnið og viðurinn. Mér finnst streymandi og ljúfur píanóleikur galdramannsins Eyþórs minna mig á vatnið. Þar heyrir maður dropa, læki, ár, polla, spegilsléttar tjarnir og stundum svolítið úfinn sjó. Kontrabassi Tómasar er viðurinn. Sveigjanlegur, vel ilmandi, jarðbundinn og ákaflega fjölbreyttur. Svo erum við Tommi frændi báðir áhugamenn um hljóðin í náttúrunni, sérstaklega í vatni.

Ég fékk leyfi þeirra félaga til að nota lagið Hólar við myndbandið mitt. Mér finnst það passa fullkomnlega við. Upp koma fallegar minningar vestan úr Dölum, kyrrð, niður úr Hólaánni og fallegur birkiskógurinn gegnt bænum Hólum.


12 views0 comments

Haustið er ein af fjórum uppáhalds árstíðunum mínum :)

Ég hef nefnilega tekið þá ákvörðun að nýta mér tregann sem færist yfir mig á þessum tíma. Á haustin tek ég tregafullar ljósmyndir og ég spila tregafulla tónlist sem aldrei áður.

Mig hefur alltaf langað til að kunna meira í upptökutækni og hljóðvinnslu. Þess vegna fékk ég vin minn, hinn mikla snilling Kristján Edelstein, til að kenna mér í vetur. Ég er búinn að hitta hann tvisvar og nú er ég kominn með nýtt áhugamál!

Ég ákvað að blanda saman áhugamálunum, gerði haustmyndband við hið undurfallega lag Hljóðnar nú haustblær. Lagið er eiginlega fyrsta verkefnið mitt í náminu hjá Krissa.


101 views0 comments
bottom of page