Search
  • Eyþór Ingi

Lítill hópur vöðusela hefur haldið til í Öxarfirði undanfarnar vikur. Þessir selir eru hánorrænir og eru stofnarnir þrír. Einn við Kanada austanvert og vesturhluta Kanada, annar í Hvítahafi, Barentshafi og Karahaf og sá minnsti, er fyrir norðan Jan Mayen, austanvert Grænland og austur að Svalbarða.

Karldýrin eru með svart skjöldóttir en kvendýrin með nettari svarta bletti.

Það var magnað að sjá þessi fallegu dýr og vonandi stoppa þau aðeins lengur hér á Norðurlandi, áður en þau halda norður á bóginn


  • Eyþór Ingi Jónsson

Við Akureyringar höfum verið með góðan gest undanfarna daga. Gesturinn er Kampselur, en tegund sú tilheyrir ekki íslensku fánunni. Þetta er semsagt flækingur, ekki ólíklegt að hann komi hingað frá Grænlandi. Kampselir éta helst skeldýr og er væntanlega eitthvað gott að éta hér í firðinum, því hingað koma nokkrir kampselir á hverju ári.

Landselur fylgdist með myndatökunni. Gaman að sjá muninn á þessum tegundum. Vonandi verða selirnir sem lengst hér því þeir eru sannkallað augnayndi og skemmtilegt að hafa þá hér innanbæjar

Enn leita ég í tónlistarsmiðju frænda míns, Tómasar R. Einarssonar. Eyþór Gunnarsson og Tómas leika lagið Kristínu af plötunni Innst inni. Skoðið endilega Spotifyrás Tómasar eða fjárfestið í plötum hans. Þær eru magnaðar!

Nauðsynlegt er að horfa á myndbandið og hlusta á tónlistina með því að velja HD.


  • Eyþór Ingi Jónsson

Þegar maður fær spennandi skilaboð, þá gleymir maður öllu öðru.

Þetta var nokkuð snemma í morgun, eftir að ég hafði skutlað Kötlu í skólann og mokað tröppurnar. Ég var kominn með ilmandi morgunkaffið í bollann, kominn með símann inn á baðherbergi, svona til að fara yfir fréttamiðlana og á leið í sturtu (þó ekki með símann). Þá fékk ég frábær skilaboð. Lára Sóley Jóhannsdóttir lét mig vita af landselum við Strandgötuna. Ég hentist í brók og bol, skildi kaffið eftir á baðherberginu, setti rafhlöður í myndavél og dróna og stökk af stað. Þessir landselir eru svo forvitnir og skemmtilegir.

Ég er voðalega þakklátur Tómasi R, frænda mínum, fyrir að leyfa mér að nota músíkina hans við myndböndin mín. Tónlistin hans er nefnilega full af náttúru. Lagið Hollíblús er af Laxness, sem kom út 2012. Davíð Þór, Ómar Guðjóns og Matthías Hemstock spila með Tomma