top of page

Grímseyjarlundinn

Updated: Oct 30, 2020

Nú er þögnin að færast yfir umhverfið. Farfuglarnir hverfa smám saman. Skógarþrösturinn heldur uppi lífinu innanbæjar og fer kórinn að hefja upp raust sína nú þegar reyniberin fara að þroskast.


Það er þannig með mig að seinnipartur maí og júní eru hápunktar ársins, amk þegar fuglamaðurinn Eyþór talar. Tónlistarmaðurinn Eyþór á fleiri uppáhalds tímabil. Nú þegar er ég farinn að hlakka til vorferða minna næsta vor.


Í fyrra og hitteðfyrra fórum við hjónin í Grímsey um sumarsólstöður. Í bæði skiptin var ég að flytja tónlist en tók myndavélina með. Ég alloft farið til Grímseyjar, en alltaf til að spila. Ég ætlaði að fara þangað í sumar eingöngu til að mynda, en komst því miður ekki.


Í Grímsey er sérlega góð aðstaða til að mynda lunda.




Í þessum tveimur síðustu ferðum mínum fór ég í stuttar gönguferðir til að ná einhverjum myndum. Þótt tíminn hafi í bæði skiptin verið allt of naumur þá náði ég mörgum af mínum uppáhalds lundamyndum þar.




Það er í raun ekki svo flókið að koma sér til Grímseyjar. Það er hægt að fljúga þangað frá Akureyri og svo er hægt að taka ferjuna frá Dalvík. Ég hef hvort tveggja prófað. Siglingin í fyrra var ekkert sérlega skemmtileg. Sjóveiki var að hrjá kallinn, en það slapp alveg til. En þrátt fyrir að einhver hefði hrópað að við værum að sigla framhjá höfrungavöðu, þá lá ég bara áfram í hnipri. Það hefði ekki gerst undir venjulegum kringustæðum.




Grímseyingar taka vel á móti gestum. Þar er hægt að fá fína gistingu. Síðast gistum við hjónin hjá Höllu Ingólfsdóttur í Arctic trip. Það var algjörlega frábært. Árið þar áður vorum við í gistiheimilinu Básum. Sjarmerandi hús með fallegu útstýni. Á báðum stöðum er stutt í frábæra myndastaði.




Lundinn heillar marga enda er hann afskaplega fallegur og skemmtilegur fugl. Ég hafði á tímabili þá tilfinningu að fuglaljósmyndarar væru lítið að mynda hann. Kannski af því að hann er svo vinsæll (stundum þreytist maður á að mynda það sama og aðrir) eða kannski var það af því að fuglinn fékk á sig frekan neikvæðan "túristastimpil" - Lundabúðir á Laugavegi....




Ég hef verið svo heppinn að hafa í nokkur skipti tekið þátt í fuglarannsóknum og merkingum í Flatey á Breiðafirði. Ein tegundin sem við fylgjumst með er lundi. Þannig að ég hef verið að kafa ofan í lundaholur til að ná í fugla og athuga varpárangur. Þessu fylgja bit, klór (ein klóin er flugbeitt) og lundalús, en samt er þetta stórskemmtilegt. Tegundin er eiginlega alveg frábær.




Ég fer mismunandi leiðir í myndbyggingu þegar ég mynda fugla. Ég ætla ekkert að fara út í útskýringar á því, en þó get ég sagt að ég einangra sennilega oftar lunda og álkur frá umhverfinu í myndatökunni heldur en með aðrar tegundir. Notast við liti, gróður, sjó og blóm til að búa til mýkt og dulúð, en einnig til að beina athyglinni að sjálfu aðal viðfangsefninu. Það er jú eitthvað sérstakt við höfuðið á þessum tveimur tegundum sem gerir það að verkum að augað leitar strax þangað.




Það er alveg á hreinu að ég fer til Grímseyjar næsta sumar. Til að heimsækja þennan fallega fugl, sem tiltölulega auðvelt er að nálgast (ekki of auðvelt, eins og á sumum ferðamannastöðum) en alltaf krefjandi að mynda (það má lítið fara úrskeiðis í lýsingu á fuglum sem eru bæði skjannahvítir og kolsvartir)




Að lokum bendi ég ykkur á að kíkja á heimasíður góðra kunningja, öðlingshjónanna Gyðu Henningsdóttur og Einars Guðmann. Þau eru á heimavelli í Grímsey og taka magnaðar fuglamyndir. Hér eru lundarnir þeirra, væntanlega flestar teknar í Grímsey:


Allar myndirnar í færslunni sem og aðrar myndir á síðunni eru fáanlegar í ýmsum stærðum og gerðum. Vinsamlegast hafið samband í gegn um síðuna :)

Recent Posts

See All
bottom of page