Einn af uppáhalds stöðum mínum á landinu er svæðið í kring um Háls og Hraun í Öxnadal. Þessi staður er svo ótrúlega fallegur á margan hátt. Hraundranginn magnaði er aðaleinkenni staðarins, en fjallið Kista, sem sést hér lengst til vinstri á myndinni er líka ógurlega fallegt.
Drangafjall er svo nyrst (lengst til hægri) á þessari mynd:
Það er gaman að ganga hring um svæðið. Tilvalið er að leggja af stað frá Hrauni, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar. Gangan er ekki mjög erfið en það tekur aðeins á að þramma hring með 20 kg myndavélabúnað á bakinu. Á bak við hæstu hólana er lítill "dalur" og þar eru grasbollar sem heita Drangabollar og svo Drangagrund. Afar áhrifaríkt að vera þar undir Dranganum, eins og hann er kallaður Hörgárdalsmegin. Svona lítur Dranginn út þeim megin:
Frá hólunum fyrir neðan Hraundranga er fallegt útsýni norður Öxnadalinn og Hörgárdalinn og ekki síður í suður, en þar sjást Hraunstapar. Kiðlingshnjúkur er yfir Hraunsvatni vestanmegin og Þverbrekkurhnjúkurinn austanmegin. Þau fjöll má sjá fjær á þessari mynd.
Þegar komið er upp á Hraunstapana blasir hið djúpa Hraunsvatn við:
Hraunsá rennur úr Hraunsvatni. Hún er nokkuð merkileg, því hún rennur neðanjarðar í nokkur hundruð metra.
Fleiri myndir teknar frá hólunum og Hraunstöpunum:
Þverbrekkuhnjúkurinn er stórglæsilegt fjall. Ég stefni á að ganga á hann næsta sumar. Hann rís hátt upp úr dalnum og blasir við er ekið er suður dalinn. Skarpur Ölduhryggurinn liggur að hnjúknum að norðan.
Fleiri myndir af Þverbrekkuhnjúki:
Tilvalið er að ganga í kring um Hraunsvatn ef maður hefur nægan tíma, en það tekur drjúga stund. Ég geng oft niður að bænum Hálsi, þ.e.a.s. ef ég hef ekki hafið för þar.
Gaman er svo að ganga á frá Hálsi og aftur að Hrauni. Það er gaman að ganga um stórgrýtt hraunið þar á milli bæjanna.
Dýralíf er eins og má búast við á svona stöðum. Þegar ofar dregur eru algengustu fuglarnir þúfutittllingur, sólskríkja og heiðlóan er víða á vappi. Steindeplar, hrafnar og rjúpur sjást þarna. Straumendur eru stundum á Hraunsánni. Svo er það blessaður himbriminn. Hann er í mínum huga einkennisfugl staðarins
Eins og ég sagði þá held ég mikið upp á staðinn og hann kemur sífellt á óvart. Friðsæll en lifandi. Hrjúfur en tær. Tignarlegur en þó mjúkar línur.
Hér koma að lokum nokkrar myndir úr fyrri ferðum mínum á svæðið:
Comments